Thursday, 2 July 2009
S-Ó-S
Síðsumars 2004 fór ég helgarferð í Skagafjörðinn í góðra vina hópi. Í bensínstoppi á Hofsósi orðaði ég loks upphátt spurningu, sem hafði leitað á mig síðan ég fyrst vissi af téðu bæjarfélagi, sem ég var nú komin í í fyrsta skipti, en reyndist síðan ein viðstaddra um að hafa velt fyrir mér: Hvað er eiginlega þetta sós í Hofsós?
Tuesday, 30 June 2009
Tilviljun
Veturinn 2005-6 bjó ég í Kaupmannahöfn. Þar eignaðist ég slatta af kunningjum og fáeina góða vini sem öll áttu það sameiginlegt að koma frá flestum öðrum Evrópulöndum en Danmörku. Síðan ég kom heim hef ég ekki farið aftur til Danmerkur, en hinsvegar vingast við þrjá Dani.
Allan
Við Allan kynntumst á finnskunámskeiði í Vaasa sumarið 2007. Hann var að læra dönsku en hafði áhuga á finnsku, einnig verið á Íslandi og lært smá íslensku. Það tók mig tvo daga að fatta afhverju ég kannaðist svona við hann. Kom á daginn að við höfðum hist í partíi í gamla háskólanum á Amager, man ekki afhverju við fórum að tala saman til að byrja með en hann komst allavega að því hvaðan ég væri og fór að tala íslensku við mig. Svo sungum við saman Maístjörnuna og Sofðu unga ástin mín og ég var svoleiðis yfir mig bit að hitta Dana með slíka þekkingu, og eiginlega enn meira yfir því að ekki væri annar Íslendingur nærstaddur sem ég gæti sýnt þetta undur. Þetta var í árslok 2005. Í Vaasa komumst við ennfremur að því að a) vorið 2007 hafði Allan gist hjá fólki í Reykjavík sem ég kannaðist við og bjó við sömu götu og ég bjó við þá b) sumarið 2000, þegar hann kom í fyrsta skipti til Íslands að vinna sem flokksstjóri með þroskaheftum krökkum á Miklatúni, hafði ég verið í unglingavinnuhóp í skúrnum við hliðina. Sumarið 2008 vorum við aftur saman á námskeiði í Hanasaari, sem er sá eini þessara árekstra sem ekki varð fyrir tilviljun.
Marie-Louise
Við Marie-Louise vorum reyndar í sama Kierkegaard-námskeiði í háskólanum í Kaupmannahöfn haustið 2005. Hvorug okkar var heimspekinemi. Það voru flestir hinna, sumir á mastersstigi og ég held að við höfum báðar verið soldið úti á þekju stundum og ekki alltaf mætt, en þegar svo bar undir sátum við stundum saman, töluðum örlítið saman líka en hittumst aldrei utan tíma. Haustið 2007 var ég að vinna á skrifstofunni í Mími símenntun, ný námskeið voru að hefjast og ein þeirra sem sóttu íslenskunámskeið þessa önn var einmitt Marie-Louise, sem var komin til Reykjavíkur að læra í LHÍ. Það tók okkur nokkrar sekúndur að finna tenginguna eftir að hún gekk inn á skrifstofuna til mín. Við hittumst nokkrum sinnum þennan vetur, svo fór hún heim yfir sumarið og þegar hún kom aftur var ég farin austur. Í vor kom hún á Seyðisfjörð að setja upp sýningu í Skaftfelli með fleiri listnemum og við hittumst nokkrum sinnum þá.
Camilla
Haustið 2007 vann ég sem fyrr segir á skrifstofunni í Mími símenntun, þar sem mamma vinnur einnig og enn auk þess að kenna íslensku á sama stað. Þetta haust fór mamma til Kína með systur sinni í ættleiðingarmissjón og ég kenndi nokkra tíma fyrir hana á meðan, kannski þrjá eða fjóra. Vikuna eftir biðu mín skilaboð á skrifstofunni í Mími, frá eistneskri stelpu úr hópnum sem ég hafði kennt. Ég hringdi í hana og hún bauð mér í varúlfapartí, sem reyndist á hólminn komið vera frekar venjulegt partí þar sem farið var í leik sem fjallaði m.a. um varúlfa. Varúlfapartíið var í húsi á Seltjarnarnesi sem sú eistneska leigði ásamt Frakka, Pólverja og Þjóðverja. Hún hafði nefnt það í símtalinu að þetta ætti að vera áfengislaust kvöld, þau hefðu haldið svo sérlega villt partí helgina áður. Ég tók það að sjálfsögðu hátíðlega og mætti bláedrú, en reyndar voru flestir að drekka. Danskur skiptinemi sem ég spjallaði við mestallt partíið vildi meina að þetta væri soldið eistneskt, að í partíi þar sem væri drukkið væru menn dauðadrukknir, en þar sem ekki væri drukkið væri bara drukkið svona venjulega. Danski skiptineminn var að sjálfsögðu Camilla, sem var þessa haustönn í háskólanum og ég náði bara að hitta einu sinni enn áður en hún fór aftur til Danmerkur. Í byrjun janúar síðastliðins fékk ég svo sms frá Camillu, sem var aftur komin til Reykjavíkur, en þá var ég komin austur. Þessa viku er hún hinsvegar stödd á Seyðisfirði að mála gömul hús með Worldwide Friends, við borðuðum hádegismat saman áðan. Vei!
Allan
Við Allan kynntumst á finnskunámskeiði í Vaasa sumarið 2007. Hann var að læra dönsku en hafði áhuga á finnsku, einnig verið á Íslandi og lært smá íslensku. Það tók mig tvo daga að fatta afhverju ég kannaðist svona við hann. Kom á daginn að við höfðum hist í partíi í gamla háskólanum á Amager, man ekki afhverju við fórum að tala saman til að byrja með en hann komst allavega að því hvaðan ég væri og fór að tala íslensku við mig. Svo sungum við saman Maístjörnuna og Sofðu unga ástin mín og ég var svoleiðis yfir mig bit að hitta Dana með slíka þekkingu, og eiginlega enn meira yfir því að ekki væri annar Íslendingur nærstaddur sem ég gæti sýnt þetta undur. Þetta var í árslok 2005. Í Vaasa komumst við ennfremur að því að a) vorið 2007 hafði Allan gist hjá fólki í Reykjavík sem ég kannaðist við og bjó við sömu götu og ég bjó við þá b) sumarið 2000, þegar hann kom í fyrsta skipti til Íslands að vinna sem flokksstjóri með þroskaheftum krökkum á Miklatúni, hafði ég verið í unglingavinnuhóp í skúrnum við hliðina. Sumarið 2008 vorum við aftur saman á námskeiði í Hanasaari, sem er sá eini þessara árekstra sem ekki varð fyrir tilviljun.
Marie-Louise
Við Marie-Louise vorum reyndar í sama Kierkegaard-námskeiði í háskólanum í Kaupmannahöfn haustið 2005. Hvorug okkar var heimspekinemi. Það voru flestir hinna, sumir á mastersstigi og ég held að við höfum báðar verið soldið úti á þekju stundum og ekki alltaf mætt, en þegar svo bar undir sátum við stundum saman, töluðum örlítið saman líka en hittumst aldrei utan tíma. Haustið 2007 var ég að vinna á skrifstofunni í Mími símenntun, ný námskeið voru að hefjast og ein þeirra sem sóttu íslenskunámskeið þessa önn var einmitt Marie-Louise, sem var komin til Reykjavíkur að læra í LHÍ. Það tók okkur nokkrar sekúndur að finna tenginguna eftir að hún gekk inn á skrifstofuna til mín. Við hittumst nokkrum sinnum þennan vetur, svo fór hún heim yfir sumarið og þegar hún kom aftur var ég farin austur. Í vor kom hún á Seyðisfjörð að setja upp sýningu í Skaftfelli með fleiri listnemum og við hittumst nokkrum sinnum þá.
Camilla
Haustið 2007 vann ég sem fyrr segir á skrifstofunni í Mími símenntun, þar sem mamma vinnur einnig og enn auk þess að kenna íslensku á sama stað. Þetta haust fór mamma til Kína með systur sinni í ættleiðingarmissjón og ég kenndi nokkra tíma fyrir hana á meðan, kannski þrjá eða fjóra. Vikuna eftir biðu mín skilaboð á skrifstofunni í Mími, frá eistneskri stelpu úr hópnum sem ég hafði kennt. Ég hringdi í hana og hún bauð mér í varúlfapartí, sem reyndist á hólminn komið vera frekar venjulegt partí þar sem farið var í leik sem fjallaði m.a. um varúlfa. Varúlfapartíið var í húsi á Seltjarnarnesi sem sú eistneska leigði ásamt Frakka, Pólverja og Þjóðverja. Hún hafði nefnt það í símtalinu að þetta ætti að vera áfengislaust kvöld, þau hefðu haldið svo sérlega villt partí helgina áður. Ég tók það að sjálfsögðu hátíðlega og mætti bláedrú, en reyndar voru flestir að drekka. Danskur skiptinemi sem ég spjallaði við mestallt partíið vildi meina að þetta væri soldið eistneskt, að í partíi þar sem væri drukkið væru menn dauðadrukknir, en þar sem ekki væri drukkið væri bara drukkið svona venjulega. Danski skiptineminn var að sjálfsögðu Camilla, sem var þessa haustönn í háskólanum og ég náði bara að hitta einu sinni enn áður en hún fór aftur til Danmerkur. Í byrjun janúar síðastliðins fékk ég svo sms frá Camillu, sem var aftur komin til Reykjavíkur, en þá var ég komin austur. Þessa viku er hún hinsvegar stödd á Seyðisfirði að mála gömul hús með Worldwide Friends, við borðuðum hádegismat saman áðan. Vei!
Saturday, 27 June 2009
Ósýniaugnhár
Þar sem ég lá einhverju sinni í rúminu mínu með lokuð augun og drap tímann fyrir svefninn, datt ég niður á það að grípa fingurgómum utan um augnhárin sitt hvorum megin og toga laust, en ákveðið, niður eftir andlitinu. Hafir þú prófað veistu að við það heyrist daufur smellur, um leið eða rétt áður en ekki verður togað lengra. Þegar ég gerði þetta fyrst fannst mér eins og augnhárin hlytu að hafa lengst, þ.e. að einhver hluti þeirra hefði - með smelli - dregist út úr augnlokunum, þar sem hann hefði áður hulist. Einhvernveginn fannst mér þetta mjög lógískt, líka þótt augnhárin lengdust að sjálfsögðu ekki merkjanlega. Löngu síðar varð þetta eitt af því sem maður áttar sig allt í einu á þegar maður er löngu hættur að hugsa um það og finnst þá eins og maður hafi séð í gegnum það fyrir löngu og eiginlega án þess að hafa neitt fyrir eða taka einusinni eftir því.
Thursday, 25 June 2009
Fjólublár snjógalli og númerað Skólavörðuholt
Þegar ég varð aðeins eldri áttaði ég mig á því að ég myndi að öllum líkindum alls ekki allt og hugsaði eftir það oft um allt það sem ég hlaut stöðugt að vera að gleyma, ýmislegt sem skipti kannski engu máli en mér fannst samt að ég ætti a.m.k. að geta munað, ef ég reyndi. Ég var á gangi um Kolaportið (nokkuð viss um að það var núverandi portið, viss um að ég var átta ára), horfði á fólk streyma hjá og fór að hugsa um allt fólkið sem ég hefði sannarlega séð um ævina, en þó gleymt um leið og haldið jafnvel seinna að ég væri að sjá í fyrsta skipti. Þetta fór í taugarnar á mér upp að því marki að ég ákvað að prófa að leggja einhvern á minnið. Ég valdi stelpu á aldur við mig, kannski aðeins eldri, í fjólubláum snjógalla, með dálítið af freknum, brúnt liðað hár og gulmunstrað eyrnaband. Ég einbeitti mér að andliti hennar uns hún hvarf úr augsýn og einsetti mér að muna alltaf eftir henni, aldrei gleyma henni og halda aldrei aftur að ég væri að sjá hana í fyrsta skipti. Ég er nokkuð viss um að ég myndi þekkja hana aftur í dag.
Kannski aðeins eldri, varla mikið, var ég á heimleið og rétt komin yfir Skólavörðuholtið, á horninu hjá Einarsgarði, þegar ég fór að hugsa um öll þau ótal bílnúmer sem ég hefði augum barið um ævina og hversu fáránlegt það væri að ég myndi þrátt fyrir það varla nokkurt einasta af þeim, eins og ég var góð að muna t.d. símanúmer. Svo ég ákvað að leggja á minnið eins mörg bílnúmer og ég gæti það sem eftir væri af leiðinni heim. Ég man ekki hversu mörg mér tókst að muna, eða neitt af númerunum sjálfum, en ég man að mamma varð dálítið áhyggjufull þegar ég kom heim og upplýsti hana um þá nauðsyn sem ég taldi á að muna random bílnúmer.
Kannski aðeins eldri, varla mikið, var ég á heimleið og rétt komin yfir Skólavörðuholtið, á horninu hjá Einarsgarði, þegar ég fór að hugsa um öll þau ótal bílnúmer sem ég hefði augum barið um ævina og hversu fáránlegt það væri að ég myndi þrátt fyrir það varla nokkurt einasta af þeim, eins og ég var góð að muna t.d. símanúmer. Svo ég ákvað að leggja á minnið eins mörg bílnúmer og ég gæti það sem eftir væri af leiðinni heim. Ég man ekki hversu mörg mér tókst að muna, eða neitt af númerunum sjálfum, en ég man að mamma varð dálítið áhyggjufull þegar ég kom heim og upplýsti hana um þá nauðsyn sem ég taldi á að muna random bílnúmer.
Wednesday, 24 June 2009
Hafmeyjar og Jón
Sumir krakkar eru sífellt að spyrja aðra krakka að aldri, jafnvel bláókunnuga krakka. Um leið virðast þeir hafa minni áhuga á aldri fullorðinna og flokka tvítuga með fimmtugum, ef aðspurðir.  Ég gleymi því aldrei á fyrsta deginum mínum á Grænuborg (var svo nýbyrjuð að ég var rétt stigin inn fyrir hliðið) þegar strákur, sem mig minnir endilega að hafi heitið Jón, vatt sér valdsmannslega aðeins of þétt upp að mér og spurði frekjulega: Kvartu gömul?! Fjagra, svaraði ég (veimiltítulega). Iiii, ég er líka sex! sagði Jón. Ég fékk vanmáttarsting yfir því hvernig nokkur gæti verið svona leiðinlegur. Sem betur fer hafði Jón engu logið um aldur sinn og útskrifaðist fljótlega eftir þetta.
Einu sinni var ég í sundi (nokkuð viss um að það var ekki í Sundhöllinni, Laugardalslauginni eða Vesturbæjarlauginni - mögulega sundlauginni á Hótel Loftleiðum, sem mamma fór stundum með okkur í og var ekki með neinu dóti í en hinsvegar mósaíksjávardýrum og -hafmeyjum á botninum) og ókunnug stelpa, sennilega aðeins eldri en ég, spurði (ekki óvinsamlega) hvað ég væri gömul. Ég sagði sjö, neémeina átta!, sem bendir til sumars og nýliðins afmælis. Spurði hana einskis til baka og hún bauð heldur engar upplýsingar fram. Stuttu eftir þetta (mér finnst það endilega hafa verið í búningsklefanum á leið upp úr í sömu sundferð, en kannski leið eitthvað lengra á milli) spurði önnur stelpa mig hvað ég væri gömul. Þá passaði ég mig svo mikið að halda árunum mínum til haga að ég svaraði níu, neémeina átta!
Einu sinni var ég í sundi (nokkuð viss um að það var ekki í Sundhöllinni, Laugardalslauginni eða Vesturbæjarlauginni - mögulega sundlauginni á Hótel Loftleiðum, sem mamma fór stundum með okkur í og var ekki með neinu dóti í en hinsvegar mósaíksjávardýrum og -hafmeyjum á botninum) og ókunnug stelpa, sennilega aðeins eldri en ég, spurði (ekki óvinsamlega) hvað ég væri gömul. Ég sagði sjö, neémeina átta!, sem bendir til sumars og nýliðins afmælis. Spurði hana einskis til baka og hún bauð heldur engar upplýsingar fram. Stuttu eftir þetta (mér finnst það endilega hafa verið í búningsklefanum á leið upp úr í sömu sundferð, en kannski leið eitthvað lengra á milli) spurði önnur stelpa mig hvað ég væri gömul. Þá passaði ég mig svo mikið að halda árunum mínum til haga að ég svaraði níu, neémeina átta!
Tuesday, 23 June 2009
Glamrandi tennur
Kannski má segja að skapist öllu frjálslegri myndir af heiminum í huga lesanda gegnum lestur en þess sem upplifir hlutina sjálfur og ég las mikið sem barn, mikið af öllu og sennilega meira en ég upplifði hluti sjálf. Ég man greinilega eftir því þegar tennurnar á mér glömruðu í fyrsta skipti. Ég var átta ára, stödd á Akureyri og að labba yfir gangbraut hjá bókabúðinni, þar sem mér hafði áskotnast Brandarabúnt númer tvö. Það var vetur og snjór, en mér eiginlega krossbrá þegar þær tóku að glamra. Ég hafði nefnilega aldrei orðið vitni að slíku hjá sjálfri mér eða öðrum, nema í bókum og blöðum, einkum Andrésblöðum, þar sem tennur glamra á ýktan, kómískan, öðrum auðheyranlegan hátt. Og þar sem ég hafði aldrei orðið vitni að slíku í veruleikanum hafði ég hlotið að álykta sem svo að það ætti sér þar yfirhöfuð ekki stað.
Monday, 22 June 2009
Hring eftir hring
Ein af elstu minningunum mínum er kannski sú elsta og kannski draumur, ég er ekki viss, en sé svo er það líklega elsti draumur sem ég man. Ég er á þriðja ári, í forstofunni í Mávahlíðinni og hleyp í hringi kringum lágt borð eða nokkurs konar kistu í miðri forstofunni, líkt og í eltingaleik, samt er ég ein. Á borðinu er hvítur dúkur með ísaumuðum laxableikum blómum og grænum blöðum. Dúkurinn var staðreynd en hefur e.t.v. bæst við eftirá. Þótt ég sé á hlaupum er minningin frosin; snýr að stofunni og baki í útidyrnar. Það er mjög rafmagnsbjart í forstofunni og sennilega kvöldsett úti. Undir sokkunum er teppi og annarsstaðar í íbúðinni er einhver.
Þetta er allt og sumt sem býr í minningu um atvik/draum sem samt er skýrari en margt sem ég gerði undanfarið ár. Hún lætur lítið yfir sér, en í raun er hver minning tengd Mávahlíðinni allar minningar henni tengdar samankomnar. Það er skrítið til þess að hugsa að hefði ég aldrei búið í Mávahlíð 10 en komið þangað í heimsókn og dreymt þennan draum um nóttina, þá hefði ég aldrei munað hann svo vel; minningin býr á einhvern hátt ekki í sjálfri sér, heldur í tengingum fyrr og síðar.
Þetta er allt og sumt sem býr í minningu um atvik/draum sem samt er skýrari en margt sem ég gerði undanfarið ár. Hún lætur lítið yfir sér, en í raun er hver minning tengd Mávahlíðinni allar minningar henni tengdar samankomnar. Það er skrítið til þess að hugsa að hefði ég aldrei búið í Mávahlíð 10 en komið þangað í heimsókn og dreymt þennan draum um nóttina, þá hefði ég aldrei munað hann svo vel; minningin býr á einhvern hátt ekki í sjálfri sér, heldur í tengingum fyrr og síðar.
Fyrsta
Þegar ég var barn fannst mér ég muna allt - drauma, vonbrigði og hamingju, allt sem átt hefði sér stað frá þeim degi þegar minningarnar mínar (eða kannski sjálfir draumarnir, vonbrigðin og hamingjan) tóku fyrst að myndast. Ég leit að vissu leyti á þær sem eign, nokkuð sem ég gat leitað til og velt fyrir mér og liðið illa eða vel; einhvernveginn, yfir - nokkuð sem ekki gæti tapast.
Börn eyða sennilega töluverðum tíma glaðvakandi uppi í rúmi - velmeinandi uppeldisþáttur sem var afar vanmetinn á sínum tíma, en eftir á að hyggja var gott að liggja bara og hugsa sig í svefn, ég hugsa eiginlega best í svefnrofum.
Einu sinni var ég barn og einhvern daginn verð ég kannski gömul. Í dag er ég þess á milli og þótt enn sé langur möguleiki á nýjum minningum, draumum, vonbrigðum og hamingju, þá finn ég strax hve fljótt hlutirnir gleymast og rifjast eftir það kannski upp og kannski ekki. Ég er sennilega enn ekki farin að gleyma því sem skiptir mestu, en á hinn bóginn tel ég mig alls ekki hafa fundið neinn endanlegan sannleika um allt sem mestu skiptir. Þess vegna vil ég muna - í merkingunni að festa í minninu og líka að leita aftur í það. Og ég man best það sem ég skrifa og les, og skil mig sjálfa oft betur gegnum skrif . Þess vegna vil ég skrifa hér, til minnis, ekki þó framvirkt (muna: lesa Í leit að glötuðum tíma) heldur minningar, drauma, vonbrigði og hamingju mislangt aftur í tímann. Því einhvern daginn verð ég kannski gömul og gleymin og týnd frá sjálfri mér og eins ógnvekjandi og það annars hljómar að lesa ókunnugan texta um eigið líf, þá vil ég eiga möguleikann á því. Stefni að daglegum birtingum.
Börn eyða sennilega töluverðum tíma glaðvakandi uppi í rúmi - velmeinandi uppeldisþáttur sem var afar vanmetinn á sínum tíma, en eftir á að hyggja var gott að liggja bara og hugsa sig í svefn, ég hugsa eiginlega best í svefnrofum.
Einu sinni var ég barn og einhvern daginn verð ég kannski gömul. Í dag er ég þess á milli og þótt enn sé langur möguleiki á nýjum minningum, draumum, vonbrigðum og hamingju, þá finn ég strax hve fljótt hlutirnir gleymast og rifjast eftir það kannski upp og kannski ekki. Ég er sennilega enn ekki farin að gleyma því sem skiptir mestu, en á hinn bóginn tel ég mig alls ekki hafa fundið neinn endanlegan sannleika um allt sem mestu skiptir. Þess vegna vil ég muna - í merkingunni að festa í minninu og líka að leita aftur í það. Og ég man best það sem ég skrifa og les, og skil mig sjálfa oft betur gegnum skrif . Þess vegna vil ég skrifa hér, til minnis, ekki þó framvirkt (muna: lesa Í leit að glötuðum tíma) heldur minningar, drauma, vonbrigði og hamingju mislangt aftur í tímann. Því einhvern daginn verð ég kannski gömul og gleymin og týnd frá sjálfri mér og eins ógnvekjandi og það annars hljómar að lesa ókunnugan texta um eigið líf, þá vil ég eiga möguleikann á því. Stefni að daglegum birtingum.
Subscribe to:
Comments (Atom)
