Ein af elstu minningunum mínum er kannski sú elsta og kannski draumur, ég er ekki viss, en sé svo er það líklega elsti draumur sem ég man. Ég er á þriðja ári, í forstofunni í Mávahlíðinni og hleyp í hringi kringum lágt borð eða nokkurs konar kistu í miðri forstofunni, líkt og í eltingaleik, samt er ég ein. Á borðinu er hvítur dúkur með ísaumuðum laxableikum blómum og grænum blöðum. Dúkurinn var staðreynd en hefur e.t.v. bæst við eftirá. Þótt ég sé á hlaupum er minningin frosin; snýr að stofunni og baki í útidyrnar. Það er mjög rafmagnsbjart í forstofunni og sennilega kvöldsett úti. Undir sokkunum er teppi og annarsstaðar í íbúðinni er einhver.
Þetta er allt og sumt sem býr í minningu um atvik/draum sem samt er skýrari en margt sem ég gerði undanfarið ár. Hún lætur lítið yfir sér, en í raun er hver minning tengd Mávahlíðinni allar minningar henni tengdar samankomnar. Það er skrítið til þess að hugsa að hefði ég aldrei búið í Mávahlíð 10 en komið þangað í heimsókn og dreymt þennan draum um nóttina, þá hefði ég aldrei munað hann svo vel; minningin býr á einhvern hátt ekki í sjálfri sér, heldur í tengingum fyrr og síðar.
Monday, 22 June 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
 
No comments:
Post a Comment