Saturday 19 February 2011

Þingholtaþökin

Við ÁLfrún Vala, uppáhalds næstum þriggja ára stóralitla frænka, vorum tvær í þakherberginu sem ég bjó í á Bergstaðastrætinu síðasta sumar, en um leið var það að einhverju leyti efstuhæðaríbúðin sem afi Helgi á í Mávahlíðinni, þar sem við mamma bjuggum eitthvað framyfir þriðja afmælisdaginn minn (en sá dagur í þeirri íbúð rammar einmitt eina af mínum elstu minningum). Ég lyfti henni upp að kvistglugganum svo hún sæi yfir að Baldursgötu 30, mínu gamla heimili þar sem amma hennar og afi búa enn. (Það sést í alvöru á milli úr glugganum mínum á Bergó.) Húsið var upplýst utanvert með marglita neonljósaormum. Ég rak augun í skópar á hillunni næst glugganum, rauða flauelsspariskó sem ég hafði átt (þó ekki í alvörunni) á hennar aldri. Við mátuðum skóna á hana, þeir pössuðu alveg og það gladdi okkur. Góður draumur.

Monday 27 September 2010

reykjavíkurnætur

Í nótt var ég á Lækjartorgi. Það hefði getað verið sumarnótt, hefði líka getað verið sumardagur. Það var að minnsta kosti frí. Ég stóð (hékk kannski réttara lýst) á bak við strætóskýlið, þar sem maður kemst frá Lækjargötu og beint inná torgið milli grjóthleðslanna. Hleðslurnar náðu aðeins inná torgið og mynduðu lágreist, opin göng og ég hallaði mér upp að veggnum þar sem þau enduðu. Þar voru fleiri, fólk kom og fór en engan þekkti ég, eða ekki sérstaklega að minnsta kosti. Ég átti erfitt með að hanga kyrr á þessum sama stað því alltaf var eitthvað sem dró mig yfir torgið, að norðausturhorni þess, og á leiðinni fram og til baka sá ég alltaf kunnugleg andlit, fleiri en þau sem héldu til við grjótveggina. Þetta norðausturhorn Lækjartorgs var á einhvern hátt jafnframt norðausturhorn Einarsgarðs, þar sem kemur smá upphækkun í grasið og tré vaxa á stangli, rétt áður en grjótveggur byrgir Eiríksgötuna. En þarna voru pollar, ekki margir en stórir og nokkuð djúpir, og heill hellingur af litríku rusli í pollunum og á grasinu og mjóa hellustígnum inná milli þeirra. Það sem dró mig að horninu hefur sennilega líka getað virst rusl, en það skipti mig máli að halda því til haga. Það var einhverskonar mannsmynd, næstum jafnhá mér, eða kannski miklu hærri, ég er ekki viss. Í grunninn voru það bara tvær plastpípur, sú styttri fest í kross nokkru fyrir ofan miðju hinnar. Þær voru blásilfurgráar að lit, en það sem gaf til kynna að um einmitt mannsmynd væri að ræða, frekar en bara plastpípur festar í kross, var í skærleitum rauðum lit sem tónaði einhvernveginn sérlega vel við þann silfurgrábláa. Þetta voru litlir hringir og grásilfurbláminn skein í gegn í þeim miðjum, en staðsetningarnar strategískar og bentu til lífs: augu, eyru, fingurgómar, tær. Í annað skipti sem ég dróst yfir torgið að gá að plastverunni minni virtist hún strax margslungnari en í hið fyrra. Það var kannski þá fyrst sem ég áttaði mig á lífinu sem í henni byggi. Á hálsinum var takki, sem virkjaði milt en sterkt ljós inní plastpípunum. Rauðu hringirnir urðu rauðglóandi. Ég slökkti ljósið og fór til baka. Það var ekki fyrr en ég kom í þriðja skiptið að ég tók eftir því að útlimir verunnar voru mun flóknari en í fyrstu hafði virst, þeir höfðu bara losnað af og möruðu í kafi í ruslpollum. Þegar ég hafði fiskað þá upp og fest á rétta staði kveikti ég ljósið aftur. Þá var líkt og veran opnaðist öll uppá gátt og breiddi úr sér í fullri stærð í fyrsta skipti, formið var enn hið sama en yfir alltsaman var strengdur íslenskur fáni og alltíeinu fannst mér hún bera sterkan svip af Ingólfsstyttunni. En eftir þetta þriðja skipti hætti ég að sjá veruna mína sem eitthvað sem tilheyrði mér persónulega.

Næst var ég í kaffiboði með Áu, Halldóru et al, og allir höfðu bakað ofboðslega mikið af brauði og kökum og kökubrauði og brauðkökum, allskonar. Allt alltof mikið, en samt varð ég stórhneyksluð þegar boðinu var lokið og Davíð henti því öllu í ruslið.

Thursday 18 February 2010

vorl Ykt

Hef setið hér smástund og gramsað í minningum eftir konkret broti til að pússa upp í sögu en ekkert fundið, bara gömul andrúmsloft og lyktir og flíkur og söngtexta og strætóskýli og gengna gsm-síma. Sem mætti vitanlega konstrúera í sögu, með meiri vinnu, meiri vöku, meiri tíma og tei. En:

þótt allt sé enn á kafi í snjó er komin vorlykt til Turku, og það er skrítið, því í fyrsta skipti tengi ég skólann minn við þann sem ég heimsótti í apríl 2007. Eins og nú sjái ég hann fyrst eins og þá, eftir að hafa vanist honum í millitíðinni. Og eins og ég finni nú fyrst að tengingar sem rati loks eitthvert hafi verið á leiðinni þangað allan veturinn.

Thursday 2 July 2009

S-Ó-S

Síðsumars 2004 fór ég helgarferð í Skagafjörðinn í góðra vina hópi. Í bensínstoppi á Hofsósi orðaði ég loks upphátt spurningu, sem hafði leitað á mig síðan ég fyrst vissi af téðu bæjarfélagi, sem ég var nú komin í í fyrsta skipti, en reyndist síðan ein viðstaddra um að hafa velt fyrir mér: Hvað er eiginlega þetta sós í Hofsós?

Tuesday 30 June 2009

Tilviljun

Veturinn 2005-6 bjó ég í Kaupmannahöfn. Þar eignaðist ég slatta af kunningjum og fáeina góða vini sem öll áttu það sameiginlegt að koma frá flestum öðrum Evrópulöndum en Danmörku. Síðan ég kom heim hef ég ekki farið aftur til Danmerkur, en hinsvegar vingast við þrjá Dani.

Allan

Við Allan kynntumst á finnskunámskeiði í Vaasa sumarið 2007. Hann var að læra dönsku en hafði áhuga á finnsku, einnig verið á Íslandi og lært smá íslensku. Það tók mig tvo daga að fatta afhverju ég kannaðist svona við hann. Kom á daginn að við höfðum hist í partíi í gamla háskólanum á Amager, man ekki afhverju við fórum að tala saman til að byrja með en hann komst allavega að því hvaðan ég væri og fór að tala íslensku við mig. Svo sungum við saman Maístjörnuna og Sofðu unga ástin mín og ég var svoleiðis yfir mig bit að hitta Dana með slíka þekkingu, og eiginlega enn meira yfir því að ekki væri annar Íslendingur nærstaddur sem ég gæti sýnt þetta undur. Þetta var í árslok 2005. Í Vaasa komumst við ennfremur að því að a) vorið 2007 hafði Allan gist hjá fólki í Reykjavík sem ég kannaðist við og bjó við sömu götu og ég bjó við þá b) sumarið 2000, þegar hann kom í fyrsta skipti til Íslands að vinna sem flokksstjóri með þroskaheftum krökkum á Miklatúni, hafði ég verið í unglingavinnuhóp í skúrnum við hliðina. Sumarið 2008 vorum við aftur saman á námskeiði í Hanasaari, sem er sá eini þessara árekstra sem ekki varð fyrir tilviljun.

Marie-Louise

Við Marie-Louise vorum reyndar í sama Kierkegaard-námskeiði í háskólanum í Kaupmannahöfn haustið 2005. Hvorug okkar var heimspekinemi. Það voru flestir hinna, sumir á mastersstigi og ég held að við höfum báðar verið soldið úti á þekju stundum og ekki alltaf mætt, en þegar svo bar undir sátum við stundum saman, töluðum örlítið saman líka en hittumst aldrei utan tíma. Haustið 2007 var ég að vinna á skrifstofunni í Mími símenntun, ný námskeið voru að hefjast og ein þeirra sem sóttu íslenskunámskeið þessa önn var einmitt Marie-Louise, sem var komin til Reykjavíkur að læra í LHÍ. Það tók okkur nokkrar sekúndur að finna tenginguna eftir að hún gekk inn á skrifstofuna til mín. Við hittumst nokkrum sinnum þennan vetur, svo fór hún heim yfir sumarið og þegar hún kom aftur var ég farin austur. Í vor kom hún á Seyðisfjörð að setja upp sýningu í Skaftfelli með fleiri listnemum og við hittumst nokkrum sinnum þá.

Camilla

Haustið 2007 vann ég sem fyrr segir á skrifstofunni í Mími símenntun, þar sem mamma vinnur einnig og enn auk þess að kenna íslensku á sama stað. Þetta haust fór mamma til Kína með systur sinni í ættleiðingarmissjón og ég kenndi nokkra tíma fyrir hana á meðan, kannski þrjá eða fjóra. Vikuna eftir biðu mín skilaboð á skrifstofunni í Mími, frá eistneskri stelpu úr hópnum sem ég hafði kennt. Ég hringdi í hana og hún bauð mér í varúlfapartí, sem reyndist á hólminn komið vera frekar venjulegt partí þar sem farið var í leik sem fjallaði m.a. um varúlfa. Varúlfapartíið var í húsi á Seltjarnarnesi sem sú eistneska leigði ásamt Frakka, Pólverja og Þjóðverja. Hún hafði nefnt það í símtalinu að þetta ætti að vera áfengislaust kvöld, þau hefðu haldið svo sérlega villt partí helgina áður. Ég tók það að sjálfsögðu hátíðlega og mætti bláedrú, en reyndar voru flestir að drekka. Danskur skiptinemi sem ég spjallaði við mestallt partíið vildi meina að þetta væri soldið eistneskt, að í partíi þar sem væri drukkið væru menn dauðadrukknir, en þar sem ekki væri drukkið væri bara drukkið svona venjulega. Danski skiptineminn var að sjálfsögðu Camilla, sem var þessa haustönn í háskólanum og ég náði bara að hitta einu sinni enn áður en hún fór aftur til Danmerkur. Í byrjun janúar síðastliðins fékk ég svo sms frá Camillu, sem var aftur komin til Reykjavíkur, en þá var ég komin austur. Þessa viku er hún hinsvegar stödd á Seyðisfirði að mála gömul hús með Worldwide Friends, við borðuðum hádegismat saman áðan. Vei!