Monday, 27 September 2010

reykjavíkurnætur

Í nótt var ég á Lækjartorgi. Það hefði getað verið sumarnótt, hefði líka getað verið sumardagur. Það var að minnsta kosti frí. Ég stóð (hékk kannski réttara lýst) á bak við strætóskýlið, þar sem maður kemst frá Lækjargötu og beint inná torgið milli grjóthleðslanna. Hleðslurnar náðu aðeins inná torgið og mynduðu lágreist, opin göng og ég hallaði mér upp að veggnum þar sem þau enduðu. Þar voru fleiri, fólk kom og fór en engan þekkti ég, eða ekki sérstaklega að minnsta kosti. Ég átti erfitt með að hanga kyrr á þessum sama stað því alltaf var eitthvað sem dró mig yfir torgið, að norðausturhorni þess, og á leiðinni fram og til baka sá ég alltaf kunnugleg andlit, fleiri en þau sem héldu til við grjótveggina. Þetta norðausturhorn Lækjartorgs var á einhvern hátt jafnframt norðausturhorn Einarsgarðs, þar sem kemur smá upphækkun í grasið og tré vaxa á stangli, rétt áður en grjótveggur byrgir Eiríksgötuna. En þarna voru pollar, ekki margir en stórir og nokkuð djúpir, og heill hellingur af litríku rusli í pollunum og á grasinu og mjóa hellustígnum inná milli þeirra. Það sem dró mig að horninu hefur sennilega líka getað virst rusl, en það skipti mig máli að halda því til haga. Það var einhverskonar mannsmynd, næstum jafnhá mér, eða kannski miklu hærri, ég er ekki viss. Í grunninn voru það bara tvær plastpípur, sú styttri fest í kross nokkru fyrir ofan miðju hinnar. Þær voru blásilfurgráar að lit, en það sem gaf til kynna að um einmitt mannsmynd væri að ræða, frekar en bara plastpípur festar í kross, var í skærleitum rauðum lit sem tónaði einhvernveginn sérlega vel við þann silfurgrábláa. Þetta voru litlir hringir og grásilfurbláminn skein í gegn í þeim miðjum, en staðsetningarnar strategískar og bentu til lífs: augu, eyru, fingurgómar, tær. Í annað skipti sem ég dróst yfir torgið að gá að plastverunni minni virtist hún strax margslungnari en í hið fyrra. Það var kannski þá fyrst sem ég áttaði mig á lífinu sem í henni byggi. Á hálsinum var takki, sem virkjaði milt en sterkt ljós inní plastpípunum. Rauðu hringirnir urðu rauðglóandi. Ég slökkti ljósið og fór til baka. Það var ekki fyrr en ég kom í þriðja skiptið að ég tók eftir því að útlimir verunnar voru mun flóknari en í fyrstu hafði virst, þeir höfðu bara losnað af og möruðu í kafi í ruslpollum. Þegar ég hafði fiskað þá upp og fest á rétta staði kveikti ég ljósið aftur. Þá var líkt og veran opnaðist öll uppá gátt og breiddi úr sér í fullri stærð í fyrsta skipti, formið var enn hið sama en yfir alltsaman var strengdur íslenskur fáni og alltíeinu fannst mér hún bera sterkan svip af Ingólfsstyttunni. En eftir þetta þriðja skipti hætti ég að sjá veruna mína sem eitthvað sem tilheyrði mér persónulega.

Næst var ég í kaffiboði með Áu, Halldóru et al, og allir höfðu bakað ofboðslega mikið af brauði og kökum og kökubrauði og brauðkökum, allskonar. Allt alltof mikið, en samt varð ég stórhneyksluð þegar boðinu var lokið og Davíð henti því öllu í ruslið.

1 comment:

  1. Er undirmeðvitundin að segja þér að fara í rafmagnsverkfræði?
    Nei grín, ég held að þetta snúist um að einhver hugmynd eða verkefni sem þú hefur lengi unnið að sé að skríða á fætur og síðan er einhver
    Íslandstenging þarna. Ég sakna þín, bloggaðu meira!

    ReplyDelete