Tuesday, 30 June 2009

Tilviljun

Veturinn 2005-6 bjó ég í Kaupmannahöfn. Þar eignaðist ég slatta af kunningjum og fáeina góða vini sem öll áttu það sameiginlegt að koma frá flestum öðrum Evrópulöndum en Danmörku. Síðan ég kom heim hef ég ekki farið aftur til Danmerkur, en hinsvegar vingast við þrjá Dani.

Allan

Við Allan kynntumst á finnskunámskeiði í Vaasa sumarið 2007. Hann var að læra dönsku en hafði áhuga á finnsku, einnig verið á Íslandi og lært smá íslensku. Það tók mig tvo daga að fatta afhverju ég kannaðist svona við hann. Kom á daginn að við höfðum hist í partíi í gamla háskólanum á Amager, man ekki afhverju við fórum að tala saman til að byrja með en hann komst allavega að því hvaðan ég væri og fór að tala íslensku við mig. Svo sungum við saman Maístjörnuna og Sofðu unga ástin mín og ég var svoleiðis yfir mig bit að hitta Dana með slíka þekkingu, og eiginlega enn meira yfir því að ekki væri annar Íslendingur nærstaddur sem ég gæti sýnt þetta undur. Þetta var í árslok 2005. Í Vaasa komumst við ennfremur að því að a) vorið 2007 hafði Allan gist hjá fólki í Reykjavík sem ég kannaðist við og bjó við sömu götu og ég bjó við þá b) sumarið 2000, þegar hann kom í fyrsta skipti til Íslands að vinna sem flokksstjóri með þroskaheftum krökkum á Miklatúni, hafði ég verið í unglingavinnuhóp í skúrnum við hliðina. Sumarið 2008 vorum við aftur saman á námskeiði í Hanasaari, sem er sá eini þessara árekstra sem ekki varð fyrir tilviljun.

Marie-Louise

Við Marie-Louise vorum reyndar í sama Kierkegaard-námskeiði í háskólanum í Kaupmannahöfn haustið 2005. Hvorug okkar var heimspekinemi. Það voru flestir hinna, sumir á mastersstigi og ég held að við höfum báðar verið soldið úti á þekju stundum og ekki alltaf mætt, en þegar svo bar undir sátum við stundum saman, töluðum örlítið saman líka en hittumst aldrei utan tíma. Haustið 2007 var ég að vinna á skrifstofunni í Mími símenntun, ný námskeið voru að hefjast og ein þeirra sem sóttu íslenskunámskeið þessa önn var einmitt Marie-Louise, sem var komin til Reykjavíkur að læra í LHÍ. Það tók okkur nokkrar sekúndur að finna tenginguna eftir að hún gekk inn á skrifstofuna til mín. Við hittumst nokkrum sinnum þennan vetur, svo fór hún heim yfir sumarið og þegar hún kom aftur var ég farin austur. Í vor kom hún á Seyðisfjörð að setja upp sýningu í Skaftfelli með fleiri listnemum og við hittumst nokkrum sinnum þá.

Camilla

Haustið 2007 vann ég sem fyrr segir á skrifstofunni í Mími símenntun, þar sem mamma vinnur einnig og enn auk þess að kenna íslensku á sama stað. Þetta haust fór mamma til Kína með systur sinni í ættleiðingarmissjón og ég kenndi nokkra tíma fyrir hana á meðan, kannski þrjá eða fjóra. Vikuna eftir biðu mín skilaboð á skrifstofunni í Mími, frá eistneskri stelpu úr hópnum sem ég hafði kennt. Ég hringdi í hana og hún bauð mér í varúlfapartí, sem reyndist á hólminn komið vera frekar venjulegt partí þar sem farið var í leik sem fjallaði m.a. um varúlfa. Varúlfapartíið var í húsi á Seltjarnarnesi sem sú eistneska leigði ásamt Frakka, Pólverja og Þjóðverja. Hún hafði nefnt það í símtalinu að þetta ætti að vera áfengislaust kvöld, þau hefðu haldið svo sérlega villt partí helgina áður. Ég tók það að sjálfsögðu hátíðlega og mætti bláedrú, en reyndar voru flestir að drekka. Danskur skiptinemi sem ég spjallaði við mestallt partíið vildi meina að þetta væri soldið eistneskt, að í partíi þar sem væri drukkið væru menn dauðadrukknir, en þar sem ekki væri drukkið væri bara drukkið svona venjulega. Danski skiptineminn var að sjálfsögðu Camilla, sem var þessa haustönn í háskólanum og ég náði bara að hitta einu sinni enn áður en hún fór aftur til Danmerkur. Í byrjun janúar síðastliðins fékk ég svo sms frá Camillu, sem var aftur komin til Reykjavíkur, en þá var ég komin austur. Þessa viku er hún hinsvegar stödd á Seyðisfirði að mála gömul hús með Worldwide Friends, við borðuðum hádegismat saman áðan. Vei!

No comments:

Post a Comment