Þegar ég var barn fannst mér ég muna allt - drauma, vonbrigði og hamingju, allt sem átt hefði sér stað frá þeim degi þegar minningarnar mínar (eða kannski sjálfir draumarnir, vonbrigðin og hamingjan) tóku fyrst að myndast. Ég leit að vissu leyti á þær sem eign, nokkuð sem ég gat leitað til og velt fyrir mér og liðið illa eða vel; einhvernveginn, yfir - nokkuð sem ekki gæti tapast.
Börn eyða sennilega töluverðum tíma glaðvakandi uppi í rúmi - velmeinandi uppeldisþáttur sem var afar vanmetinn á sínum tíma, en eftir á að hyggja var gott að liggja bara og hugsa sig í svefn, ég hugsa eiginlega best í svefnrofum.
Einu sinni var ég barn og einhvern daginn verð ég kannski gömul. Í dag er ég þess á milli og þótt enn sé langur möguleiki á nýjum minningum, draumum, vonbrigðum og hamingju, þá finn ég strax hve fljótt hlutirnir gleymast og rifjast eftir það kannski upp og kannski ekki. Ég er sennilega enn ekki farin að gleyma því sem skiptir mestu, en á hinn bóginn tel ég mig alls ekki hafa fundið neinn endanlegan sannleika um allt sem mestu skiptir. Þess vegna vil ég muna - í merkingunni að festa í minninu og líka að leita aftur í það. Og ég man best það sem ég skrifa og les, og skil mig sjálfa oft betur gegnum skrif . Þess vegna vil ég skrifa hér, til minnis, ekki þó framvirkt (muna: lesa Í leit að glötuðum tíma) heldur minningar, drauma, vonbrigði og hamingju mislangt aftur í tímann. Því einhvern daginn verð ég kannski gömul og gleymin og týnd frá sjálfri mér og eins ógnvekjandi og það annars hljómar að lesa ókunnugan texta um eigið líf, þá vil ég eiga möguleikann á því. Stefni að daglegum birtingum.
Monday, 22 June 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
 
Thetta likar mer! =)
ReplyDelete