Tuesday, 23 June 2009
Glamrandi tennur
Kannski má segja að skapist öllu frjálslegri myndir af heiminum í huga lesanda gegnum lestur en þess sem upplifir hlutina sjálfur og ég las mikið sem barn, mikið af öllu og sennilega meira en ég upplifði hluti sjálf. Ég man greinilega eftir því þegar tennurnar á mér glömruðu í fyrsta skipti. Ég var átta ára, stödd á Akureyri og að labba yfir gangbraut hjá bókabúðinni, þar sem mér hafði áskotnast Brandarabúnt númer tvö. Það var vetur og snjór, en mér eiginlega krossbrá þegar þær tóku að glamra. Ég hafði nefnilega aldrei orðið vitni að slíku hjá sjálfri mér eða öðrum, nema í bókum og blöðum, einkum Andrésblöðum, þar sem tennur glamra á ýktan, kómískan, öðrum auðheyranlegan hátt. Og þar sem ég hafði aldrei orðið vitni að slíku í veruleikanum hafði ég hlotið að álykta sem svo að það ætti sér þar yfirhöfuð ekki stað.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
 
No comments:
Post a Comment