Sumir krakkar eru sífellt að spyrja aðra krakka að aldri, jafnvel bláókunnuga krakka. Um leið virðast þeir hafa minni áhuga á aldri fullorðinna og flokka tvítuga með fimmtugum, ef aðspurðir.  Ég gleymi því aldrei á fyrsta deginum mínum á Grænuborg (var svo nýbyrjuð að ég var rétt stigin inn fyrir hliðið) þegar strákur, sem mig minnir endilega að hafi heitið Jón, vatt sér valdsmannslega aðeins of þétt upp að mér og spurði frekjulega: Kvartu gömul?! Fjagra, svaraði ég (veimiltítulega). Iiii, ég er líka sex! sagði Jón. Ég fékk vanmáttarsting yfir því hvernig nokkur gæti verið svona leiðinlegur. Sem betur fer hafði Jón engu logið um aldur sinn og útskrifaðist fljótlega eftir þetta.
Einu sinni var ég í sundi (nokkuð viss um að það var ekki í Sundhöllinni, Laugardalslauginni eða Vesturbæjarlauginni - mögulega sundlauginni á Hótel Loftleiðum, sem mamma fór stundum með okkur í og var ekki með neinu dóti í en hinsvegar mósaíksjávardýrum og -hafmeyjum á botninum) og ókunnug stelpa, sennilega aðeins eldri en ég, spurði (ekki óvinsamlega) hvað ég væri gömul. Ég sagði sjö, neémeina átta!, sem bendir til sumars og nýliðins afmælis. Spurði hana einskis til baka og hún bauð heldur engar upplýsingar fram. Stuttu eftir þetta (mér finnst það endilega hafa verið í búningsklefanum á leið upp úr í sömu sundferð, en kannski leið eitthvað lengra á milli) spurði önnur stelpa mig hvað ég væri gömul. Þá passaði ég mig svo mikið að halda árunum mínum til haga að ég svaraði níu, neémeina átta!
Wednesday, 24 June 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
 
No comments:
Post a Comment