Thursday, 25 June 2009

Fjólublár snjógalli og númerað Skólavörðuholt

Þegar ég varð aðeins eldri áttaði ég mig á því að ég myndi að öllum líkindum alls ekki allt og hugsaði eftir það oft um allt það sem ég hlaut stöðugt að vera að gleyma, ýmislegt sem skipti kannski engu máli en mér fannst samt að ég ætti a.m.k. að geta munað, ef ég reyndi. Ég var á gangi um Kolaportið (nokkuð viss um að það var núverandi portið, viss um að ég var átta ára), horfði á fólk streyma hjá og fór að hugsa um allt fólkið sem ég hefði sannarlega séð um ævina, en þó gleymt um leið og haldið jafnvel seinna að ég væri að sjá í fyrsta skipti. Þetta fór í taugarnar á mér upp að því marki að ég ákvað að prófa að leggja einhvern á minnið. Ég valdi stelpu á aldur við mig, kannski aðeins eldri, í fjólubláum snjógalla, með dálítið af freknum, brúnt liðað hár og gulmunstrað eyrnaband. Ég einbeitti mér að andliti hennar uns hún hvarf úr augsýn og einsetti mér að muna alltaf eftir henni, aldrei gleyma henni og halda aldrei aftur að ég væri að sjá hana í fyrsta skipti. Ég er nokkuð viss um að ég myndi þekkja hana aftur í dag.

Kannski aðeins eldri, varla mikið, var ég á heimleið og rétt komin yfir Skólavörðuholtið, á horninu hjá Einarsgarði, þegar ég fór að hugsa um öll þau ótal bílnúmer sem ég hefði augum barið um ævina og hversu fáránlegt það væri að ég myndi þrátt fyrir það varla nokkurt einasta af þeim, eins og ég var góð að muna t.d. símanúmer. Svo ég ákvað að leggja á minnið eins mörg bílnúmer og ég gæti það sem eftir væri af leiðinni heim. Ég man ekki hversu mörg mér tókst að muna, eða neitt af númerunum sjálfum, en ég man að mamma varð dálítið áhyggjufull þegar ég kom heim og upplýsti hana um þá nauðsyn sem ég taldi á að muna random bílnúmer.

No comments:

Post a Comment